Hústökufólkið neitar að yfirgefa fangaklefa


FÓLKIÐ sem handtekið var í gær fyrir að gera sig heimakomið í tómu húsi á Vatnsstíg í Reykjavík neitaði í dag að yfirgefa fangaklefa lögreglu. Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga um meðferð sakamála má lögregla aðeins halda manni í 24 klukkustundir eftir handtöku og krafðist fólkið að fá að nýta rétt sinn og sitja allar tuttugu og fjóru klukkustundirnar. Til átaka kom milli þeirra handteknu og lögreglumanna og lauk því svo að fólkinu var komið inn í stóran lögreglubíl og það keyrt að Keili, þar sem það var svo skilið eftir.

„Á tímum sem þessum er neysluréttur okkar í fangelsinu ofar grundvallarreglunni um lögbundnar refsiheimildir sem felst í 69. grein stjórnarskrárinnar. Við vorum búin að koma okkur fyrir í fangaklefanum, hann var tómur og hafði staðið ónotaður lengi. Við vorum meira að segja búin að opna þar bókasafn og vorum byrjuð að gefa öðrum föngum mat og föt. Þá kom lögreglan bara og sagði okkur að við yrðum að fara - af hverju?. Þá sögðum við bara hingað og ekki lengra,“ segir Baldvin Jóhönnuson-Árnason, hústöku- og fangaklefatökumaður.

Klefinn var í rústum eftir aðgerð lögreglu sem notaði sex lítra af piparúða, kylfur og sagir.



Lögreglan gaf fólkinu frest til hádegis í dag til að yfirgefa klefann en ruddist þá inn í hann og braut þar allt og bramlaði. Þá beitti hún piparúða á þá sem veittu mótspyrnu og alls var um sex lítrum af úða sprautað inn í klefann. Þá réðust óeirðalögreglumenn inn í klefann og söguðu hann allan í sundur, beittu höggsprengjum og handtóku fólkið sem neitaði að yfirgefa klefann.

„Lögreglan beitti okkur miklu harðræði. Það er fullt af fólki sem er atvinnulaust og á ekki til hnífs og skeiðar - við vildum bjóða það fólk velkomið til okkar í fangaklefann þar sem það gæti fengið að borða og fengið ókeypis bækur. Fyrst vorum við rekin út úr húsi sem enginn var að nota og nú út úr fangaklefa sem enginn var að nota. Hvar er verðmætamat lögreglumanna - hafa þeir kannski ekki séð Draumalandið ennþá?“ segir Baldvin.

Hústökufólkið vildi nýta rétt sinn til að dvelja í fangaklefanum.



Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að afar mikilvægt hafi verið að koma fólkinu út úr fangaklefanum áður en 24 klukkustunda-fresturinn rann út. „Hefðum við ekki komið fólkinu út í tæka tíð hefði íslenska ríkið gerst sekt um gróft brot gegn 7. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Við kappkostuðum því öllu; beittum öllum okkar úrræðum, gasi, piparúða, kylfum og hvaðeina. Að lokum þurftum við að saga allan klefann í sundur og þannig náðum við þeim út. Sama úrræði gafst vel í gær þegar við söguðum Vatnsstíginn í sundur.“

Fengið af þessum vef 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bara Steini

hihihihihihihhi

Bara Steini, 21.4.2009 kl. 17:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband