15.12.2008 | 10:12
Við erum að bregðast ykkur –núna
Við erum að bregðast ykkur núna
Yfirlýsing frá Jóni Bjarka Magnússyni
Ég finn mig knúinn, samvisku minnar vegna, að segja frá því að frétt sem ég skrifaði fyrir DV þann 6. nóvember síðastliðinn um Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóra Landsbankans var stöðvuð. Þetta geri ég vegna þess að það er skylda mín gagnvart lesendum og fólkinu í landinu að upplýsa um slík mál.
Ég hef reynt að sannfæra sjálfan mig í meira en mánuð um hið gagnstæða.
Að best væri að gleyma þessu og þegja. Ég hef hinsvegar ekki gleymt þessu atviki, og ég get ekki þagað yfir því lengur.
Ég tel það ekki vera ásættanlegt að einhverjir ónefndir aðilar úti í bæ geti stöðvað eðlilegan fréttaflutning.
Ég get ekki gerst sekur um að vera þátttakandi í leynimakki og blekkingu í krafti auðvalds á þessum síðustu og verstu tímum.
Þann 6. nóvember skrifaði ég grein um Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóra Landsbankans sem hafði komið sér fyrir á skrifstofu í húsnæði Landsbankans við Pósthússtræti 7.
Reynir Traustason ritstjóri DV hafði beðið mig um að vinna þetta verkefni. Eftir tvær heimsóknir og fleiri tilraunir til þess að ná tali af Sigurjóni í gegnum síma náði ég loksins að spyrja hann nokkurra spurninga.
Í kjölfarið skrifaði ég grein þar sem meðal annars kom fram að Sigurjón væri að koma á fót ráðgjafarfyrirtæki í húsnæði Landsbankans.
Einnig að hann vonaðist eftir verkefnum frá Landsbankanum. Ég skilaði fréttinni til fréttastjóra eins og vanalegt er og bjóst ekki við öðru en að hún myndi birtast í blaðinu daginn eftir.
Þegar ég mætti daginn eftir kallaði Reynir Traustason mig inn á skrifstofu og tjáði mér að stórir aðilar úti í bæ hefðu stöðvað hana.
Hann sagðist ekki vera sáttur við þá ákvörðun að bakka með fréttina en ákvað samt að gera það. Ég varð hugsi yfir þessum fregnum en taldi mér trú um að eflaust væri best að láta þetta liggja á milli hluta.
Nokkru áður eða þann 10. október síðastliðinn birtist leiðari í DV undir yfirskriftinni Við brugðumst ykkur.
Þar sagði Jón Trausti Reynisson annar tveggja ritstjóra blaðsins fjölmiðla hafa brugðist þjóðinni.
Ég sé ástæðu til þess að rifja leiðarann aðeins upp. Hann hefst svona: Hrun íslenska efnahagslífsins stafar ekki af hagfræðilegum ytri aðstæðum, heldur af lýðræðislegum ástæðum. Þjóðfélagið hefði aldrei farið á fullri ferð fram af brúninni ef það hefði ekki verið gegnsýrt af blekkingu í áraraðir.
Blekkingin kom frá stjórnmálamönnum, viðskiptamönnum og líka þeim sem áttu að verja þjóðfélagið gegn blekkingunni, fjölmiðlamönnum.
Ég lít svo á að með því að stöðva þessa frétt hafi DV ekki varið þjóðfélagið gegn blekkingunni, heldur viðhaldið henni.
Fyrirsögnin mætti því vera: Við erum að bregðast ykkur núna.
Frjáls fjölmiðlun er eitthvað sem þjóðin þarfnast nú. Á tímum sem þessum, við áfall á borð við það sem íslenska þjóðin er að ganga í gegnum, á að vera algerlega skilyrðislaus krafa að fjölmiðlar séu frjálsir og geti sagt hvaða þær fréttir sem þeim sýnist og hvernig sem þeim sýnist.
Séu óbundnir af hagsmunum fárra, peningum, styrktaraðilum, stjórnmálaöflum eða lánadrottnum. Og ef þetta bregst tel ég að fólki beri skylda til þess að láta vita.
Ég geri mér ekki grein fyrir því hver eða hverjir það voru sem sannfærðu ritstjóra DV um að birta greinina ekki.
En Reynir sagði mér á fundi sem við áttum saman, að þessir aðilar væru valdamiklir og að þetta hefði hreint og beint snúist um líf eða dauða blaðsins.
Af orðum hans að dæma er ljóst að haft var í hótunum við hann.
Hann þyrfti að hlýða.
Ég vil ekki gera lítið úr þeirri klemmu sem ritstjóri minn var settur í: að birta ekki frétt, eða stofna ella lífi sjálfs blaðsins í hættu. Það er erfitt að vera í slíkri stöðu. En ég er ósammála ákvörðun hans. Ég tel að best sé fyrir hann, DV, þjóðfélagið allt, að fram komi hver sú atburðarás hafi verið sem hann vísaði til í samræðum við mig, þegar hann útskýrði að fréttin yrði ekki birt.
Að þetta sé jafnvel eina tæka vörnin við slíkar aðstæður.
Og að stóra fréttin hljóti að vera þessi
: Ónefndir aðilar réðust gegn því sem á að vera einn af hyrningarsteinum lýðræðis á Íslandi. Krafa mín og okkar allra hlýtur því að vera ófrávíkjanleg að eftirfarandi verði svarað: Hvers eðlis er hótunin sem ritstjóri DV var beittur, og hver eða hverjir hótuðu?
Frá því að þetta átti sér stað hef ég velt því fyrir mér hversu algengt slíkt sé í íslenskum fjölmiðlum. Að ákveðnar greinar sem hafi verið unnar séu teknar úr umferð vegna þess að þær skaði á einhvern hátt hagsmuni valdamikilla aðila. Sögur ganga um slíkt, en fáar ef nokkrar rata fyrir sjónir almennings.
Ef enginn stígur fram og segir opinskátt frá slíkum dæmum í frjálsum fjölmiðlum er líklegt að stór hluti fólks standi í þeirri trú að ekki sé stunduð ritskoðun í íslenskum fjölmiðlum, að allt sé í himnalagi.
Það skiptir í raun minnstu máli hvað fram kemur í þessari frétt. Líklega er ekkert í henni sérstaklega afdrifaríkt, en þó er ljóst að á þessum tíma var eftirspurnin eftir fréttum um athafnir Sigurjóns Árnasonar geysilega mikil, meðal annars vegna vangaveltna Egils Helgasonar um Sigurjón, og hvað fram færi á skrifstofunum við Pósthússstræti.
Og hversu mörgum stórfréttum er þá kippt úr umferð við að einhverjir menn úti í bæ meti það sem svo að birting kæmi sér illa fyrir þá?
Á Eyjunni var fjallað um skrifstofu Sigurjóns þann fjórða og sjötta nóvember Á vefsíðunni T24 var meðal annars fullyrt að Sigurjón væri að vinna ötullega að því að greiða úr skuldaflækjum fyrirtækja sem tengjast Baugi við Landsbankann.
Þar sagði meðal annars þetta: Á götuhorninu er því haldið fram að hugmyndafræðingurinn að baki kaupum Rauðsólar á fjölmiðlahluta 365 hf. sé Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans.
Fullyrt er að hann vinni nú ötullega að því að greiða úr skuldaflækjum fyrirtækja sem tengjast Baugi við Landsbankann.
Sigurjón er sagður vinna náið með Jóni Ásgeiri og tengdum aðilum en Sigurjón og Ari Edwald, forstjóri 365, eru gamlir samherjar í háskólapólitík og Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Þeir sem standa á götuhorninu og velta fyrir sér hvernig kaupin gerast á eyrinni eftir að ríkið yfirtók bankana velta því fyrir sér hvort og þá með hvaða hætti fyrrum yfirmenn banka, sem nú eru í þrotum, koma að málum varðandi uppgjör skulda einstakra viðskiptavina.
Andrés Jónsson fjallaði um störf Sigurjóns á bloggi sínu þann 5. nóvember: Meðal viðskiptavina Sigurjóns (auk Baugs og Rauðsólar) eru Samson, stór breskur banki og stór þýskur banki. Einnig einhverjir fleiri erlendir og innlendir aðilar.
Þeir treysti engum betur en Sigurjóni til að gæta hagsmuna sinna í tengslum við Landsbankann, enda hafi hann verið sá sem setti öll þessi viðskipti saman á sínum tíma.
Ég sem blaðamaður var stöðvaður, grein mín ekki birt og ég svo beðinn um að tala ekki um það. Með hliðsjón af því sem hefur meðal annars komið fram í forystugreinum DV um að allt yrði að vera uppi á borðinu fannst mér þetta skjóta skökku við. Blekkingin sem svo mjög hefur verið gagnrýnd var allt í einu farin að ná inn á ritstjórn DV.
Í leiðara DV þann 10 október segir einnig: DV mun í framhaldinu sýna aukna harðfylgni í samskiptum við stjórnmálamenn og viðskiptamenn. Þeir verða ekki látnir komast upp með að ljúga að þjóðinni athugasemdalaust.
Því þeir sem ljúga að fjölmiðlum ljúga líka að almenningi. Blekkinguna verður að uppræta, því hún er meinið sem varð þjóðinni að falli.
Ég tek undir þetta og svara hérmeð kalli blaðsins. Ég hvet fleiri blaðamenn, sem hafa látið stöðva fréttirnar sínar, til að stíga fram, og að lokum vil ég ítreka kröfuna um að eftirfarandi spurningum verði svarað:
Hvers eðlis er hótunin sem ritstjóri DV var beittur, og hver eða hverjir hótuðu?
Greinin sem var stöðvuð Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóri Landsbankans kom sér fyrir á þriðju hæð í skrifstofuhúsnæði Landsbankans á Pósthússtræti fyrir nokkrum dögum.
Þetta staðfestir hann við DV. Hann segist ekki vera að vinna fyrir bankann, heldur sjálfan sig. Aðspurður um það hvaða starfsemi fari fram á skrifstofunni segist hann vera að koma á fót litlu ráðgjafafyrirtæki.
Sko. Það sem ég er að reyna að sjá er hvort maður eigi möguleika á því að vinna ráðgjöf fyrir hina og þessa. Maður er að reyna að búa sér til vinnu, segir Sigurjón og bætir því við að hann vilji helst halda því fyrir sjálfan sig hvað hann ætli sér að gera með fyrirtækið.
Leigir af Landsbanka Sigurjón leigir skrifstofuna af Landsbankanum.
Hann segir þó að Landsbankinn hafi leigt húsnæðið af fyrirtæki sem eigi fasteignir út um alla borg. Hann segir skrifstofuhúsnæðið vera tómt og að verið sé að yfirgefa skrifstofur Landsbankans í húsnæðinu. Þetta er allt meira og minna tómt núna, segir hann.
Blaðamaður DV heimsótti húsnæðið í gær. Á fjórðu hæðinni, fyrir ofan nýja skrifstofu fyrrverandi bankastjórans, voru skrifstofur Landsbankans en þar var ennþá starfsemi í gangi. Þegar Sigurjón var spurður út í þetta sagði hann; þá er bara ekki búið að færa það. Annars veit ég það ekki nákvæmlega.Ég held að það eigi að leigja þetta út fyrir einhverja nýsköpunarstarfsemi, segir hann.
Vonast eftir verkefnum Sigurjón segir að hinar og þessar deildir Landsbankans hafi verið í húsinu. Hann vill þó ekki fara nánar út í það.
Á skilti sem er á veggnum fyrir utan dyr húsnæðisins kemur fram að á þriðju hæðinni, þar sem skrifstofa Sigurjóns er, sé lögfræðisvið bankans staðsett. Þegar hann er spurður hvort að hann sé byrjaður að gefa Landsbankanum ráðgjöf svarar hann; já ég ætla að vona að ég geti fengið einhver verkefni þar eins og annars staðar.
Að sjálfsögðu. Hann tekur fram að það geti vel farið svo að að hann komi að einhverjum verkefnum til aðstoðar bankanum.
Aðspurður um það hvort að hann hafi átt bréf í bankanum segir hann svo ekki hafa verið.
Sigurjón segist undanfarið hafa skráð niður það sem gerðist í aðdraganda hrunsins til þess að það lægi fyrir og til að tryggja að menn hafi réttar upplýsingar.
Ég er auðvitað alltaf boðinn og búinn til að hjálpa Landsbankanum. Ég er alltaf tilbúinn til þess að gera það, segir hann að lokum.
Jón Bjarki Magnússon, fyrrverandi blaðamaður á DV
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.